logo
  • Virðing -
  • Jákvæðni -
  • Framsækni -
  • Umhyggja

Í brennidepli: Norskar bókmenntir

07/09/2018

Þjóðsögur, draugasögur og ævintýri þekkja flestir Íslendingar, a.m.k. þeir sem eru fæddir fyrir síðustu aldamót, og má segja að þær séu samtvinnaðar menningu Íslendinga frá fornu fari. Frændur okkar í Noregi búa einnig að sams konar frásögnum sem eru grunnur að bókmenntaarfi þeirra.

Norskar þjóðsögur Norske folkeeventyr (1841-1844) er samantekt frásagna sem hafa varðveist og þróast úr ýmsum mállýskum afdala Noregs, allt frá heiðni til nútímans. Þetta eru sögur um drauga, álfa, guði og tröll settar saman á meistaralegan hátt, og þannig er varðveitt sérstaða þeirra í sagnahefð Norðmanna.

Þáttaskil urðu í norskri bókmenntasögu með útgáfu þjóðsagnanna, sem hafði marktæk áhrif á norska tungu. Asbjörnsen og Moe skrásettu þessar frásagnir. Þeir kynntust ungir, en þrátt fyrir ólíkan bakgrunn urðu þeir fljótt fóstbræður.

Per Christen Asbjörnsen (1812-1885) var sonur glersmiðs. Hann tók að sér einkakennslu í Austur-Noregi um tvítugt og hóf þar að safna þjóðsögum. Jörgen Engebretsen Moe (1813-1882) var sonur efnaðs og vel menntaðs bónda. Hann útskrifaðist sem guðfræðingur og gerðist einnig kennari, og í frítíma sínum safnaði hann þjóðsögum í Suður-Noregi. Á sama tíma hóf Asbjörnsen að sinna náttúruvísindum, og á ferðum sínum um norsku firðina viðaði hann að sér fleiri frásögnum. Seinna ákváðu svo þeir Asbjörnsen og Moe að gefa efnið út í sameiningu.

Á þessum tíma gætti mikilla áhrifa af stöðluðu ritmáli Dana á norskt ritmál. Það þótti því ótækt að gefa út þjóðsögur Norðmanna undir þeim kringumstæðum. Einnig voru norsku mállýskurnar taldar of staðbundnar til að hægt væri að nota þær í svona útgáfu.

Asbjörnsen og Moe leystu þetta vandamál með því að aðlaga stíl sinn að stefnu Grimms-bræðra, þ.e. að einfalda ritmálið í stað þess að nota mismunandi mállýskur. Hins vegar lögðu þeir jafnvel meiri áherslu á að halda þjóðlegum einkennum sagnanna en forverar þeirra í Þýskalandi höfðu gert.

Fyrstu sagnasöfnin komu út á árunum 1841 til 1844. Upphaflega kom safnið út í heftum, en síðar voru gefin út tvö bindi, 1845 og 1848, sem nefndust Norske folke- og huldre-eventyr.

Evrópa tók verkinu sem mikilvægu framlagi til samtíma goðsagna og var það þýtt á fjölmörg tungumál. Fyrsta þýðingin á ensku kom út árið 1859 og fleiri fylgdu á eftir allt fram á 21. öldina.

Í Noregi var verkið fyrirmynd að stílbragði sem hafði áhrif á þróun bókmáls (ríkismál) sem í dag er annað af tveimur opinberum ritmálum Noregs, en hitt er nýnorska (landsmál). 

Til baka

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira