logo
  • Virðing -
  • Jákvæðni -
  • Framsækni -
  • Umhyggja

BÓKASAFN - Í brennidepli: BANDARÍSKAR BÓKMENNTIR I. hluti

12/09/2017
- stiklað á stóru -

Bandarískar bókmenntir hafa mótast af sögu landsins, allt frá nýlendutímabilinu að myndun sambandsríkjanna, sem sameinaði þjóðina undir einum fána. Hægt er að rekja bókmenntir þjóðarinnar að upphafi 16. aldar þegar Evrópubúar fluttust búferlum til Norður-Ameríku. Þar var markmið hinna ólíku hópa að skapa fyrirmyndarsamfélög í hinum nýja heimi       

     
Bókmenntir nýlendutímans voru oft á tíðum upphafning á nýlendunni og þeim tækifærum sem þar mátti finna. Ævintýramaðurinn John Smith er talinn hafa átt frumkvæði að bandarískum bókmenntum. Af hans fyrstu verkum má nefna „A True Relation of ... Virginia...“ (1608) og „The General Historie of Virginia, New England, and the Summer Isles“ (1624).

Rithöfundar nýlendutímans tókust oft á um hollustu við England eða um ríkisstjórnina vegna sambands ríkis og kirkju. Nytjaskrif 16. aldar voru ævisögur, sáttmálar, ferðafrásagnir og daglegt líf. Lítið var um leikrit eða skáldsögur, sem víða var umdeilt form, en ljóðagerð festi sig tryggilega í sessi. Bæði innihald og form bókmennta í Bandaríkjunum voru greinilega undir breskum áhrifum.

17. öldin einkenndist af pólitískum átökum í frelsisbaráttu Bandaríkjanna; á milli nýlendubúa sem vildu sjálfstæði og stuðningsmanna bresku krúnunnar. Ljóðagerð varð að vopni beggja aðila í frelsisbaráttu Bandaríkjanna þar sem stríðandi aðilar notuðu ljóðin til áróðurs, hvatningar og upphafningar hetjudáða.

Við lok 17. aldarinnar var farið að skrifa bæði leikrit og sögulegar skáldsögur. Pólitískir rithöfundar höfðu mikil áhrif á sjálfstæðisbaráttuna og sá áhrifamesti var Thomas Jefferson (1743-1826). Jefferson varð þriðji forseti Bandaríkjanna og gegndi embættinu í 8 ár. Hann samdi sjálfstæðisyfirlýsingu nýlenduþings Bandaríkjanna þrettán, sem gekk út á það að að bandarísku nýlendurnar væru frjálsar og óháðar Stóra Bretlandi.

Í kjölfar frelsisbaráttunnar voru rithöfundar hvattir til að skrifa um eitthvað sem væri sérstaklega bandarískt. Meðal þeirra rithöfunda sem ruddu braut bandarískra bókmennta langt fram eftir 18. öldinni voru eftirtaldir:

William Cullen Bryant (1794-1878), ljóðahöfundur og ritstjóri dagblaðsins Evening Post í New York í hálfa öld.

Washington Irving (1783-1859), skrifaði m.a. smásögurnar „The Legend of Sleepy Hollow“ og „Rip Van Winkle“ sem gefnar voru út í The Sketch Book (1819-20) og voru hans þekktustu verk.

James Fenimore Cooper (1789-1851) höfundur skáldsögunnar Síðasti Móhíkaninn og fjölda annarra bóka. Skinnfeldur, „The Pioneers“ (1823), er fyrsta sagan í bandarískum bókmenntum sem dregur upp nákvæma mynd af því hvernig lífið var hjá evrópsku landnámsfólki sem sótti til vesturs.

Edgar Allan Poe (1809-1849) skrifaði myrkar smásögur og ljóð, en vann einnig sem gagnrýnandi og ritstjóri. Hann varð frægur fyrir að þróa hið dularfulla og hryllilega í skrifum sínum, og enn þann dag í dag eru skáldverk hans meðal þeirra fremstu í flokki hryllingssagna. Þekktustu verk hans eru smásagan „The Tell-Tale Heart“ (1843) og ljóðið Hrafninn, „The Raven“ (1845), eitt frægustu ljóða heims.

Nathaniel Hawthorne (1804-1864) skrifaði skáldsöguna „The Scarlet Letter“ (1850). Bókin er eitt af meistaraverkum bandarískra skáldsagna og tekur á djúpstæðan hátt á því góða og hinu illa í manninum.

Herman Melville (1819—1891) skrifaði eitt af meistaraverkum bandarískra skáldsagna Mobý Dick eða Hvalinn, „Moby-Dick or the Whale“ (1851) og smásöguna Bartleby skrifari, „Bartleby, the scrivener: a story of Wall Street“ (1853) sem endurspeglar svartsýni hans sjálfs á erfiðum tímum.

Walt Whitman (1819-1892) var ljóðskáld, blaðamaður og rithöfundur. Útgáfa ljóðasafns hans „Leaves of Grass“ (1855) markaði tímamót í sögu bandarískra bókmennta. Hann notaði ljóðform óháð reglubundnum bragarhætti og rími hins hefðbundna forms.

Ýmsar pólitískar stefnur og straumar höfðu áhrif á bókmenntirnar í takt við sögu, þróun og vöxt Bandaríkjanna. Margir rithöfundar létu ljós sitt skína milli 1830-1867 og vörpuðu gamansömum blæ á stjórnmál og samfélag Nýja Englands. Seba Smith (1792-1868) og James Russell Lowell (1819-1891) voru þar fremst í flokki.

Í suðvestur hluta Bandaríkjanna voru rithöfundar og áhrifamenn eins og Davy Crockett (1786-1836) og George Washington Harris (1814-1869) sem drógu upp myndir af lífinu við framlínuna í óbyggðunum og fylgismönnum lýðræðisstjórnar Andrew Jacksons.

Henry Wadsworth Longfellow (1807-1882) var eitt ástsælasta ljóðskáld Bandaríkjanna á 18. öld. Hann þýddi meistaralega Hinn guðdómlega gleðileik Dantes og samdi í kjölfarið sex sonnettur um Dante sem eru meðal hans bestu verka.

Amos Bronson Alcott (1799-1888) skrifaði „The Journals of Bronson Alcott“ og var að mörgu leyti á undan sinni samtíð; fátækur og sjálflærður bóndasonur. Hann var hugsjónamaður, kennari, heimspekingur og rithöfundur. Hann var grænkeri (borðaði hvorki kjöt né fisk), fylgjandi afnámi þrælahalds, og talaði fyrir réttindum kvenna.

Alcott var alltaf fátækur og skuldugur, vann það sem honum bauðst eða þáði ölmusu frá öðrum. Það breyttist þegar dóttir hans Louisa May náði vinsældum sem rithöfundur, m.a. með sögunni Yngismeyjar (1868). Þá fóru fræðslufyrirlestrar hans sjálfs einnig að gefa öruggar tekjur.

Ralph Waldo Emerson (1803-1882) prestur, fyrirlesari, skáld, og rithöfundur. Þegar hann missti konu sína úr berklum fór hann að efast um starf sitt og boðskap kirkjunnar. Hann skrifaði m.a. „Self Reliance“ (1841) sem fjallar um að hver og einn þurfi eingöngu að leita inn á við til að sækja andlega leiðsögn.

Henry David Thoreau (1817-1862). Hans þekktasta verk er „Walden“ (1854), þar sem hann ver trú sína á að nútímamaðurinn ætti að draga úr kröfum sínum til lífsins. Bókin er byggð á hugrenningum Thoreau og reynslu þegar hann bjó einn í kofa við Walden Pond.

Öflugar konur voru áhrifamiklar í baráttu fyrir réttlæti og framförum í samfélaginu á 18. öld og notuðu skrif sín til að koma skoðunum sínum á framfæri.

Margaret Fuller (1810-1850), kennari og rithöfundur, skrifaði sig inn í menningarsögu Bandaríkjanna með bókinni „Women in the Nineteenth Century“ (1845). Þar skoðar hún stöðu kvenna innan samfélagsins og hvetur þær til að mennta sig og þar með öðlast sjálfstæði. Að láta ekki sér ekki nægja að halda heimili heldur fylgja sinni sannfæringu og vinna við það sem þær hafa áhuga á, hvað sem það kann að vera „Let them be sea-captains, if they will“.

Harriet Beecher Stowe (1811-1896) var rithöfundur og mannvinur. Hún var fylgjandi afnámi þrælahalds og virk í þeirri baráttu. Bókina Kofi Tómasar frænda (1852) byggði hún á eigin rannsóknum og upplifun. Bókin olli miklu fjaðrafoki þegar hún kom út, því þar var studdur málstaður afnámssinna. Til dæmis var bókinni afneitað í Suðurríkjunum. Það var sérlega hættulegt að eiga og/eða lesa Kofa Tómasar frænda í Suðurríkjum Bandaríkjanna á þessum tíma. Sumir telja að bókin hafi verið einn af þeim þáttum sem hleypti af stað borgarastyrjöldinni.

Emily Dickinson (1830-1886) var ljóðskáld sem lifði einangruðu lífi. Aðeins 10 af næstum 1800 ljóðum hennar voru gefin út á meðan hún lifði. Stíll hennar, þar sem heilindi eru í fyrirrúmi, þykir einstakur, og hún er ásamt Whitman talin vera helstu ljóðskáld Bandaríkja 18. aldarinnar.

Í kjölfar borgarastyrjaldarinnar varð viðsnúningur í sögu Bandaríkjanna, iðnaður jókst og dró til muna úr hagrænu mikilvægi vestursins. Nútíminn hóf innreið sína hafði mikil áhrif á þróun bókmennta.
Háðfuglar urðu vinsælir rithöfundar. Þeir notuðu m.a. slanguryrði og óbeinar vísanir ásamt latínuslettum en öðluðust, þrátt fyrir slæleg skrif, vinsældir hjá þúsundum landsmanna. Skáldsagnaskrif urðu fyrst vinsæl meðal lesenda þegar rithöfundar notuðu lýsingar á málfari, klæðaburði o.þ.h. til að gefa frásögnum raunverulegan blæ.

Mark Twain (Samuel Langhorne Clemens) (1835-1910) var einn ástsælasti rithöfundur Bandaríkjanna, blaðamaður, fyrirlesari og kímniskáld. Twain varð þekktur um allan heim fyrir ferðasögur sínar og æskusögur. Þekktustu skáldsögur hans eru Tumi Sawyer, „The Adventures of Tom Sawyer“ (1876) og Stikilsberja-FinnurAdventures of Huckleberry Finn“ (1885).

Við lok 18. aldar fóru rithöfundar að snúa sér meira að natúralisma, þar sem áhersla er á að gera hversdagslegum veruleika nákvæm skil, fremur en siðgæði mannsins eða skynsemi hans. Seinna komu út alþjóðlegar skáldsögur sem fjölluðu um togstreitu í sambandi Bandaríkjamanna og Evrópumanna; hvert land með sínar áherslur á sérkenni og dyggðir.

Ýmis konar ritverk lögðu grunn að umfangsmiklum bókmenntum sem blómstruðu eftir borgarastyrjöldina til ársins 1914. Bækur sem fjölluðu um aðför að vaxandi viðskiptavaldi og spillingu ríkisstjórnarinnar, með áherslu á hvernig hið fullkomna samfélag gæti verið - samfélagsleg uppreisn.

Til baka

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira