logo
  • Virðing -
  • Jákvæðni -
  • Framsækni -
  • Umhyggja

Í brennidepli: Myrkir glæpir og enn dekkri sálir

06/11/2018

Myrkir glæpir og enn dekkri sálir 

„I became insane, with long intervals of horrible sanity.“
                                                        Edgar Allan Poe

Veturinn nálgast og skammdegið færist yfir, fullkominn tími til að kveikja á kertum og lesa bók sem fær kalt vatn til að renna milli skinns og hörunds.

Hrollvekja eða taugatrekkjandi spennutryllir í söguformi, eitthvað sem veldur skelfingu, hryllingi eða andstyggð. Slíkar sögur hafa verið sagðar frá örófi alda og hafa verið stór hluti þjóðsagna víðsvegar. Í sögunum má finna yfirnáttúruleg fyrirbæri eins og drauga, nornir og vampírur, eða eitthvað raunsætt sem vekur sálrænan ótta eða spennu hjá lesendum.

Á 18. öld fór að bera á gotneskum stíl í vestrænum bókmenntum. Stílbragðið einkenndist af hrollvekjandi, yfirnáttúrulegu eða dularfullu söguefni í drungalegu umhverfi með það að markmiði að ýta undir ótta og eftirvæntingu.

Horace Walpole (1717-1797) rithöfundur er talinn hafa lagt línurnar að þessari gerð bókmennta með sögunni Castle of Otranto (1765). Bókin er sú fyrsta sinnar tegundar sem kom út á enskri tungu, þar sem yfirnáttúrulegir atburðir og dularfullt andrúmsloft ráða ríkjum, og hefur orðið mörgum rithöfundinum innblástur.

Mary Wollstonecraft Shelly (1797-1851) var fyrsti vestræni rithöfundurinn sem spann vísindi saman við sagnaheim hrollvekjunnar í víðfrægri skáldsögu sinni Frankenstein (1818). Frankenstein fjallar um sköpun eins þekktasta skrímslis hryllingsbókmenntanna sem á endanum tortímir skapara sínum.

Edgar Allan Poe (1809- 1849), bandarískur rithöfundur, ritstjóri og bókmenntagagnrýnandi, er hvað þekktastur fyrir ljóð og smásögur, og sérstaklega fyrir dularfullar sögur sem snúast upp í hrylling. Meðal vinsælustu verka hans eru: „Hrafninn“ The Raven (1845), The Tall-Tale Heart (1843), The Black Cat (1843) og The Fall of the House of Usher (1839).


Í dag eiga rithöfundar hrollvekja og spennutrylla sér stóran hóp lesenda. Meðal þessara höfunda eru: 

Dean Koontz (1945-) er bandarískur metsölurithöfundur spennutrylla. Selst hafa yfir 500 milljónir eintaka og hafa bækur hans verið þýddar á 38 tungumál. Koontz nýtir sér oftar en ekki fantasíu, hrylling, vísindaskáldskap, dulúð og háðung í skáldsögum sínum, og fangar athygli lesendans svo um munar.

Áður en rithöfundarferill Koontz fór á flug starfaði hann sem kennari og skrifaði í hjáverkum. Eftir hálft annað ár sem kennari tók eiginkona hans að sér að vera fyrirvinnan næstu fimm árin svo hann gæti einbeitt sér að skrifum. Hún setti honum þó þau mörk að ef sá tími nægði honum ekki til að gera skrifin að fullu starfi þá kæmi sá tími aldrei. Fimm árum seinna varð hún að hætta starfi sínu til að sjá um viðskiptahlið rithöfundarferils eiginmannsins. (deankoontz.com)

Nokkrar af vinsælustu bókum Koontz:

Whispers (1980) er fyrsta bók Koonts sem birtist á metsölulista dagblaðsins New York Times, og þar með var grunnur lagður að metsöluferli hans. Sagan var kvikmynduð árið 1990.

„Óttist eigi“ Fear nothing (1986), „Fylgsnið“ Hideaway (1992), „Slátrarinn“ Mr. Murder (1993), „Drekatár“ Dragon tears (1993), „Skrýtni Tómas“ Odd Thomas (2003), „Góði strákurinn“ The Good guy (2007).

Koontz hefur gefið út bækur, sögur, nóvellur, teiknimyndasyrpur og grafískar skáldsögur í yfir sex áratugi. Jafnframt því að skrifa undir eigin nafni hefur hann einnig notast við dulnefni: K. R. Dwyer, Aaron Wolfe, Brian Coffey, Leigh Nichols, Owen West, Richard Paige, Deanna Dwyer, Leonard Chris og David Axton.

Stephen Edwin King (1947-) er einn vinsælasti rithöfundurinn vestanhafs og víðar og hefur átt mikilli velgengni að fagna. Hrollvekja, yfirnáttúrulegar skáldsögur, spenna, vísindaskáldskapur og fantasía, allt þetta má finna í bókum hans.

King gerði garðinn fyrst frægan með bókinni Carrie (1973). Sagan fjallar um menntaskólastelpuna Carrie White sem er utangarðs en uppgötvar smátt og smátt að hún býr yfir hugarorku og getur fært til hluti. Stjórnsöm, heittrúuð móðir og gróft einelti jafnaldra Carrie í skólanum leiða á endanum til dramatísks uppgjörs á lokaballinu.

Stephen King er mjög afkastamikill rithöfundur sem hefur gefið út yfir 50 skáldsögur, og er hvergi nærri hættur. Allmargar bóka hans hafa verið kvikmyndaðar og einnig gerðir sjónvarpsþættir. Hér eru nokkrir titlar sem margir ættu að kannast við:

„Gemsinn“ Cell (2016), „Umsátur“ Cujo (1983), „Örlög“ Dolores Claiborne (1995), „Draumagildran“ Dreamcatcher (2003), „Eldvakinn“ Firestarter (1984), „Græna mílan“ The Green Mile (2001), „Eymd“ Misery (1990), Needful Things (1993), „Dýrakirkjugarðurinn“ Pet Semetary (1989) (endurgerð myndarinnar væntanleg 2019), The Shawshank Redemption (1994), „Duld“ The Shining (1980), Under the Dome (2013).

Stefán Máni (1970-) er einna þekktastur íslenskra rithöfunda fyrir spennutrylla sem gerast á Íslandi. Bækur hans á borð við „Svartur á leik“ (2004) sem var kvikmynduð og frumsýnd árið 2012, „Skipið“ (2006), „Ódáðahraun“ (2008), „Hyldýpið“ (2009), „Nautið“ (2015) og „Svarti galdur“ (2016), hafa vakið eftirtekt sem kraftmiklar, ískyggilegar skáldsögur sem halda lesandanum í heljargreipum fram á síðustu blaðsíðu.

Leyfum Poe að eiga síðustu orðin að sinni, en þau eiga vel við í þessu samhengi:

                                   Through a circle that ever returneth in
                                                 To the self-same spot,
                                  And much of Madness and more of Sin
                                      And Horror the Soul of the Plot.

                                                           Edgar Allan Poe, Ligeia (1838)

Til baka

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira