logo
  • Virðing -
  • Jákvæðni -
  • Framsækni -
  • Umhyggja

Ævi og verk

Ævi og verk með sérstakri áherslu á tengsl skáldsins við Mosfellssveit og -bæ.

 

1902
  • 23. apríl - Halldór Guðjónsson fæddur að Laugavegi 32 í Reykjavík. Foreldrar hans voru Sigríður Halldórsdóttir (1872-1951) og Guðjón Helgi Helgason (1870-1919).
  • Í Reykjavík bjuggu um 6 þúsund manns á þessum árum.

1905
  • Í júní: Halldór flyst ásamt foreldrum sínum að Laxnesi í Mosfellsdal.
  • Íbúar í Mosfellssveit voru þá um 400 og náði sveitin niður að Elliðaám.

1909
  • Fædd Sigríður, systir Halldórs, d. 1966.
  • Ungmennafélagið Afturelding í Mosfellssveit stofnað.
  • Halldór fær vitrun á páskadagsmorgun í Laxnesi og ókunnug rödd mælir við hann: „þegar þú verður sautján ára muntu deya."
1910
  • Bringnavegur í Mosfellsdal lagður að undirlagi Guðjóns föður Halldórs. Vegurinn tengdi saman þjóðbrautina, sem lá um norðanverðan Mosfellsdal, og veginn til Þingvalla sem lá um Borgarhóla.
  • Varmá brúuð og sumarfær akvegur lagður yfir svonefnda Ása upp í Mosfellsdal.

1912
  • Fædd Helga, systir Halldórs, d. 1992.
  • Dóri í Laxnesi er „skrifari" í Barnafélagi Mosfellsdalsins sem var meðal annars málverndarfélag.

1913

  • Halldór fer í mjólkursöluferðir úr Mosfellsdal til Reykjavíkur.
  • Óskar Halldórsson (1893-1953) stundar ylrækt á Suður-Reykjum. 60 árum síðar verður hann fyrirmynd Halldórs að „Íslandsbersa" í skáldsögunni Guðsgjafaþulu.

1914
  • Halldór hleypir heimdraganum til Reykjavíkur til að nema dráttlist í Iðnskólanum og hljóðfæraslátt.
  • Halldór skrifar 600 blaðsíðna skáldsögu, Aftureldíngu, sem nú er glötuð.

1915
  • Ólafur Magnússon f. 1831, bóndi á Hrísbrú og sögupersóna í Innansveitarkroniku, andast.
  • Halldór gengur fyrir gafl í Lágafellskirkju hjá séra Magnúsi Þorsteinssyni presti á Mosfelli.
1918
  • Halldór lýkur gagnfræðaprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík.

1919
  • Guðjón Helgason andast um vorið.
  • Barn náttúrunnar, fyrsta skáldsaga Halldórs, kemur út um haustið en þá er höfundurinn sigldur til Hafnar.

 

1920
  • Halldór kemur heim um vorið og dvelur um hríð í Laxnesi ásamt vini sínum Einari Ól. Sveinssyni (1899-1984).
  • Leiðir Halldórs og Jóhanns Jónssonar skálds (1896-1932) liggja saman á skemmtun á Varmárbökkum.

1921

  • Halldór siglir aftur til meginlands Evrópu.

1922
  • Séra Magnús Þorsteinsson á Mosfelli andast (f. 1872).
1923
  • Fædd María, dóttir Halldórs og Málfríðar Jónsdóttur.
  • Þann 6. janúar skírist Halldór til kaþólskrar trúar og tekur upp nafnið Kiljan eftir kaþólskum dýrlingi. Dvelur í klaustri í Clervaux í Lúxemborg (1922-1923).
  • Nokkrar sögur koma út. Í bókinni voru smásögur sem Halldór samdi 17-18 ára gamall, þ.á m. Steinninn minn helgi („gljúfrasteinn"). Að minnsta kosti ein sagan var samin í Laxnesi, en sumar erlendis á dönsku.

1924
  • Skáldsagan Undir Helgahnúk kemur út.
  • Guðný Klængsdóttir (f. 1832), móðuramma Halldórs, andast í Laxnesi.
  • Halldór kemur heim um vorið en segist vera „vantrúaður á pólarloftslagið".

1925

  • Kaþólsk viðhorf kemur út en bókin var andmælaritgerð gegn Bréfi til Láru eftir Þórberg Þórðarson.
  • Halldór fer suður til Sikileyjar þar sem hann skrifar Vefarann mikla frá Kasmír um sumarið.

1926
  • Halldór snýr aftur til föðurlandsins, yrkir kvæðið Hallormsstaðaskógur, sem er nokkurs konar játning gagnvart íslenskum veruleika sem hann segist vilja takast á við: „Héðan í frá er fortíð mín í ösku og framtíð mín er norðurhvelsins ljóð."

1927
  • Skáldsagan Vefarinn mikli frá Kasmír kemur út. Bókin er tímamótaverk í íslenskum bókmenntum.
  • Halldór fer til Vesturheims og dvelur þar til ársins 1929.

1928
  • Sigríður, móðir Halldórs, selur Laxnesjörðina og flytur til Reykjavíkur.

1929

  • Alþýðubókin, pólitískar ritgerðir í sósíalískum anda, kemur út.

1930
  • Kvæðakver, eina kvæðabók skáldsins, kemur út. Bókin hefur tvisvar verið endurbætt og gefin út að nýju. Þar er er m.a. að finna kvæðabálkinn Alþíngishátíðin þar sem Mosfellssveit kemur nokkuð við sögu.
  • Halldór kvænist Ingibjörgu Einarsdóttur (Ingu Laxness leikkonu).

1931
  • Fæddur Einar Laxness, sonur Halldórs og Ingu.
  • Salka Valka, fyrra bindi, („Þú vínviður hreini") kemur út.

1932
  • Salka Valka, síðara bindi, („Fuglinn í fjörunni") kemur út. Salka Valka er oft talið fyrsta verk Halldórs sem fullþroska rithöfundar.
  • Halldór heldur til Ráðstjórnarríkjanna.
1933

  • Fótatak manna, smásögur koma út. Bókin hefur að geyma sjö sögur þ.á m. eru Úngfrúin góða og húsið og Lilja.
  • Einnig kemur út bókin Í Austurvegi sem er ferðasaga frá Ráðstjórnarríkjunum.

1934
  • Straumrof, fyrsta leikrit Halldórs og það eina um langt skeið, frumsýnt.
  • Sjálfstætt fólk, fyrri hluti kemur út.
1935

  • Sjálfstætt fólk , síðari hluti, kemur út. Hluti verksins var að nokkru leyti skrifaður í Reykjahlíð í Mosfellsdal sem þá var í eigu Stefáns Þorlákssonar (1895-1959). Hann varð seinna þekkt persóna í Innansveitarkroniku.
  • Þórður gamli halti (smásaga) gefin út.

1936
  • Guðrún Jónsdóttir andast á Æsustöðum í Mosfellsdal. Hún var fædd á bænum Hamrahlíð í Mosfellssveit árið 1854 og starfaði alla sína tíð sem vinnukona á ýmsum bæjum í sveitinni, þ.á m. í Laxnesi. Guðrún er þekkt persóna úr Innansveitarkroniku.

1937

  • Dagleið á fjöllum, ritgerðir, kemur út.
  • Ljós heimsins, fyrsti hluti sagnabálksins Heimsljóss, kemur út.

1938

  • Gerska ævintýrið, (ritgerð um Sovétríkin), kemur út.
  • Höll sumarlandsins, annar hluti sagnabálksins Heimsljóss, kemur út. Þar kemur Pétur Pálsson þríhross mikið við sögu en sum persónueinkenni hans eru sótt til Sigurjóns Péturssonar (1888-1955), verksmiðjueiganda að Álafossi í Mosfellssveit.

1939
  • Hús skáldsins, þriðji hluti Heimsljóss, kemur út.

 

1940
  • Fegurð himinsins, fjórði hluti Heimsljóss, kemur út.
  • Halldór og Inga Laxness slíta samvistum.
1942
  • Ritgerðasafnið Vettvángur dagsins kemur út.
  • Smásagnasafnið Sjö töframenn kemur út. Þar á meðal er smásagan Pípuleikarinn sem byggir á bernskuminningu úr Mosfellsdal.
1943
  • Fyrsti hluti sagnabálksins Íslandsklukkan kemur út.
1944
  • Annar hluti sagnabálksins Íslandsklukkan kemur út og nefnist Hið ljósa man.
1945
  • Halldór kvænist Auði Sveinsdóttur. Þau flytja í nýtt hús í Laxneslandi og nefna það Gljúfrastein.
1946
  • Þriðji hluti Íslandsklukkunnar, Eldur í Kaupinhafn, kemur út.
  • Ritgerðasafnið Sjálfsagðir hlutir kemur út.
1948
  • Skáldsagan Atómstöðin kemur út.
1950
  • Ritgerðarsafnið Reisubókarkorn kemur út. Þar er m.a. að finna stutta ritsmíð um akvegi í nágrenni Reykjavíkur.
1951
  • Fædd Sigríður, dóttir Halldórs og Auðar.
  • Sigríður móðir Halldórs andast.
  • Félagsheimilið Hlégarður vígt. Halldór flytur ræðu og greinir ítarlega frá kirkjum í héraðinu á fyrri tíð sem hann segir að hafi verið félagsheimili síns tíma.
1952
  • Skáldsagan Gerpla kemur út.
  • Heiman ég fór, skáldsaga skrifuð á yngri árum, kemur út í fyrsta skipti.
1954
  • Leikritið Silfurtúnglið frumsýnt.
  • Fædd Guðný, dóttir Halldórs og Auðar.
1955
  • Ritgerðarsafnið Dagur í senn kemur út. Þar er m.a. að finna ræðuna Að upplúkníngu Hlégarðs 1951.
  • Halldór Laxness hlýtur bókmenntaverðlaun Nóbels og flytur rómaða ræðu á nóbelshátíðinni í Stokkhólmi. Þar minnist hann m.a. Guðnýjar ömmu sinnar, sem kenndi honum flest gott heima í Laxnesi, og varð fyrir vikið frægasta amma íslenskrar bókmenntasögu! Ræðan er prentuð í ritgerðarsafninu Gjörníngabók sem kom út árið 1959.
1956
  • Í febrúar - Mosfellingar hylla Nóbelskáldið og fara í blysför eftir endilöngum Mosfellsdal að Gljúfrasteini.
1957
  • Skáldsagan Brekkukotsannáll kemur út.
1959
  • Ritgerðarsafnið Gjörníngjabók kemur út. Meðal annars er þar stutt grein um lóuna í Mosfellsdal og víðar og önnur um Reykjalund.
  • Stefán Þorláksson (f. 1895), hreppstjóri í Reykjadal, andast. Samkvæmt erfðaskrá Stefáns runnu eigur hans til kirkjubyggingar á Mosfelli eins og þekkt er úr Innansveitarkroniku.

 

1960
  • Skáldsagan Paradísarheimt kemur út.
1961
  • Leikritið Strompleikurinn frumsýnt.
1962
  • Leikritið Prjónastofan Sólin frumsýnt.
  • Endurminningabókin Skáldatími kemur út. Meðal annars eru bernskuminningar frá Laxnesi, (bls. 89-91).
1964
  • Smásagnasafnið Sjöstafakverið kemur út.
1965
  • Ritgerðarsafnið Upphaf mannúðarstefnu kemur út.
  • Þann 4. apríl er Mosfellskirkja hin nýja vígð.
1966
  • Leikritið Dúfnaveislan frumsýnt.
1967
  • Ritgerðarsafnið Íslendíngaspjall kemur út.
1968
  • Skáldsagan Kristnihald undir Jökli kemur út.
1969
  • Ritgerðarsafnið Vínlandspúnktar kemur út.
  • Skáldsagan Innansveitarkronika kemur út. Sagan gerist í Mosfellssveit og byggir á raunverulegum atburðum og persónum.
1971
  • Ritgerðarsafnið Yfirskygðir staðir kemur út. Þar er að finna minningagreinar um Bjarna Magnússon bónda á Hraðastöðum, Jónas Magnússon bónda og vegavinnuverkstjóra í Stardal á Kjalarnesi og Þórunni Ástríði Björnsdóttur frá Grafarholti sem var eiginkona Jóns Helgasonar prófessors í Kaupmannahöfn.
1972
  • Halldór Laxness gerður að heiðursborgara Mosfellshrepps og honum haldið samsæti í Hlégarði.
  • Skáldsagan Guðsgjafaþula kemur út.
1974
  • Ritgerðarsafnið Þjóðhátíðarrolla kemur út.
  • Minningasagan Í túninu heima kemur út. Bókin segir einkum frá bernskuárum Halldórs í Laxnesi.
1976
  • Minningasagan Úngur ég var kemur út. Bókin fjallar mest um árin eftir að Halldór hleypti heimdraganum úr Mosfellsdal.
1977
  • Ritgerðasafnið Seiseijú, mikil ósköp kemur út. Meðal annars er þar greinin Lángferðir í heimahögum.
1978
  • Minningasagan Sjömeistarasagan kemur út. Þar greinir Halldór m.a. frá einkennilegri vitrun sem hann varð fyrir í Laxnesi þegar hann var sjö ára.

 

1980
  • Minningasagan Grikklandsárið kemur út. Þar segir Halldór m.a. frá kynnum sínum af skáldinu Jóhanni Jónssyni (1896-1932) og Einari Ól. Sveinssyni (1899-1984), seinna prófessor í íslenskum bókmenntum, en leiðir þeirra þriggja lágu saman í Mosfellssveit.
1981
  • Ritgerðasafnið Við heygarðshornið kemur út.
1982
  • Mosfellingar halda Halldóri Laxness samsæti í Hlégarði í tilefni af áttræðisafmæli hans.
1984
  • Ritgerðarsafnið Og árin líða kemur út. Þar er m.a. að finna minningargrein um Kjartan Magnússon (1891-1980), bónda á Hraðastöðum í Mosfellsdal.
1986
  • Ritgerðarsafnið Af menníngarástandi kemur út.
1987
  • Dagar hjá múnkum, minningabók úr klaustri í Lúxemborg, kemur út.
1992
  • Leikfélag Mosfellssveitar sýnir leikgerð af Innansveitarkroniku til heiðurs Halldóri níræðum. Menningarmálanefnd bæjarins stendur fyrir dagskrá sem tileinkuð er skáldinu.
1998
  • 8. febrúar: Halldór Kiljan Laxness andast að Reykjalundi í Mosfellsbæ. Á afmælisdegi skáldsins um vorið er duft hans jarðsett að Mosfelli. Þá var fyrsti sumardagur.

    við ána greri fífillinn minn bestur.
    En brott eg fór, og fjöllin urðu kyr.
    Eg fer hér nú sem þúsundáragestur.

 

 

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira