logo
  • Virðing -
  • Jákvæðni -
  • Framsækni -
  • Umhyggja

„Og hvað um tað?“ í Listasal Mosfellsbæjar.

10/01/2023

Verið velkomin á sýningu Melkorku Matthíasdóttur, „Og hvað um tað?“, í Listasal Mosfellsbæjar.

„Og hvað um tað?“ er sýning á keramik munum eftir leirlistakonuna Melkorku Matthíasdóttur. Utan á leirkerin notar Melkorka öskuglerunga sem eru gerðir úr taðösku annars vegar og beykiösku hins vegar. Þessa ösku hefur hún fengið og unnið í samstarfi við Reykofninn í Kópavogi sem reykir m.a. lax og silung fyrir almenning.

Hugmyndina fékk hún þegar hún var að vinna að útskriftarverkefni sínu í Myndlistaskólanum í Reykjavík vorið 2021. Þá var hún að skoða hvaða áhrif aska íslenskra plantna og annarra efna í náttúru Íslands hefði á glerung. Mesta vinnan við þetta verkefni var að brenna plönturnar og búa til öskuna. Þá datt henni í hug að hafa samband við Reykofninn sem hún vissi að væri að brenna við og tað. Henni fannst taðið sérstaklega spennandi efni enda inniheldur það mikinn kísil sem er eitt aðalefni glerunga og er svokallaður glermyndari. Í þessum tilraunum sem eru til sýnis má bera saman þessi tvenns konar efni: taðið og beykið, sem hvert hefur sinn sjarma.

Sýningin er óður til íslenskrar náttúru og menningar. Hinn íslenski trjágróður og taðið, úrgangur sauðkindarinnar, sem er þurrkað og brennt. Um leið er sýningin áminning um möguleika þess að nýta efni úr nærumhverfi þar sem úrgangur úr einni framleiðslu er fjársjóður í annarri.

Opnun er þriðjudaginn 10. janúar kl. 14-18. 
Síðasti sýningardagur er 3. febrúar 2023. 
Opið er kl. 9-18 virka daga og kl. 12-16 á laugardögum.

Til baka

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira