logo
  • Virðing -
  • Jákvæðni -
  • Framsækni -
  • Umhyggja

Fjölskyldan flytur

"Hvur hefur mokað þessa hóla?"

Halldór fæddist í Reykjavík hinn 23. apríl 1902 en fluttist á barnsaldri með foreldrum sínum, Sigríði Halldórsdóttur og Guðjóni Helga Helgasyni, að Laxnesi í Mosfellssveit. 

Halldór greindi frá þessum búferlaflutningum í blaðaviðtali þegar hann fagnaði áttræðisafmæli sínu og sagði: 

„Ég var þriggja ára þegar ég flutti hingað í sveitina. Það var í fardögum árið 1905, mig minnir að fardagar séu 5. júní. Þá fyrst sá ég eitthvað annað en Laugaveginn, …

Í þá daga var farið allt aðra leið hingað uppeftir en gert er í dag. Þá var engin brú á Úlfarsá og farið með sjónum, alla leið upp undir þar sem vegamótin eru nú.

Ég man óljóst eftir þessu ferðalagi, en móðir mín sagði mér seinna, að þegar við tókum stefnuna á Helgafellið hefði ég spurt: „Hvur hefur mokað þessa hóla?“ Ég hafði þá aldrei séð neitt fjall svo nærri, aldrei komið út fyrir Laugaveginn áður,"1

Þegar foreldrar Halldórs fluttu að Laxnesi var öðruvísi um að litast í sveitinni en nú á dögum, bændasamfélag var enn við lýði og þéttbýlismyndun ekki hafin.  Víðast voru bæir byggðir úr torfi og grjóti en í Mosfellsdal skar eitt hús sig úr, það var íbúðarhúsið að Laxnesi sem byggt var seint á 19. öld og stendur enn. Það hús varð bernskuheimili Halldórs Guðjónssonar.

Halldór Laxness fjögurra ára með foreldrum sínum, Sigríði Halldórsdóttur og Guðjóni Helga Helgasyni, vegaverkstjóra.

Halldór ásamt foreldrum sínum Guðjóni Helga Helgasyni og Sigríði Halldórsdóttur. Myndin er tekin 1906, árið eftir að fjölskyldan flutti að Laxnesi.

Jörð til sölu

Auglýsing úr blaðinu Fjallkonunni frá 20. október 1903 þar sem Laxnesjörðin er auglýst til sölu.

Auglýsingin er ómetanleg heimild um húsakost á bernskuheimili Halldórs, nýtt íbúðarhús var á jörðinni, sem stendur enn og er eitt elsta hús sveitarfélagsins. Bílaöld var ekki runnin upp á Íslandi árið 1903 og var talin tveggja-þriggja stunda reið til Reykjavíkur. Mjólkursöluferðir þangað voru að hefjast og Halldór í Laxnesi átti eftir að taka þátt í þeim eins og hann greinir frá í endurminningabókum sínum.

 

Jörðin Laxnes auglýst til sölu í Fjallkonunni.

 

 

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira