logo
  • Virðing -
  • Jákvæðni -
  • Framsækni -
  • Umhyggja

Eiginleikar / Attributes

20/04/2024

Velkomin á opnun sýningar Hönnu Dísar Whitehead “Eiginleikar - Attributes” í Listasal Mosfellsbæjar laugardaginn 20. Apríl kl 14:00 - 16:00.

Á sýningunni er leikið með ólíka eiginleika efniviða, forma og hluta.

Þegar við búum okkur heimili mótum við veggi, gólf og loft í rýminu í landslagi sem okkur líkar. Við fyllum það af litum, áferðum, formum og minningum. Húsnæðið þarf auk þess að hafa nokkuð notagildi, til að mynda þarf að vera hægt að setjast þar niður, elda mat og sofa. Við þurfum líka rými fyrir hugann og flest kjósum við að heimilið sé staður fyrir hjartað og sálina. Heimili okkar getur verið nákvæmlega eins og okkur dettur í hug.

Hlutir innan heimilisins hafa ákveðna eiginleika. Séu þeir fjöldaframleiddir eru eiginleikar þeirra búnir takmörkunum véla. Séu þeir handgerðir eru þeir háðir því valdi sem hendur og hugur hafa yfir efninu sem þeir eru búnir til úr.
Á sýningunni mætast ólíkir eiginleikar. Handverk og stafræn tækni, list og hönnun, leir og strá, viður og ull.

Hugmyndavinna Hönnu Dísar hefst oft á því að skoðaðar eru bækur og því rökrétt að sýna í Listasal Mosfellsbæjar sem staðsettur er inn af bókasafninu. Bækurnar sem hún skoðar eru oftar en ekki, alls ekkert tengdar þeim verkefnum sem hún hefur sett sér fyrir hendur. Það er betra að skoða eitthvað allt annað til að hreyfa við hugmyndunum, máta þær við ólíka hluti og færa þær þannig um set.

Í verkin notast Hanna Dís meðal annars við endurunnin, sjálfbæran eða íslenskan við í samtali við leir, textíl og strá.

Verkin eru sjálfstætt framhald verka sem sýnd voru á Stockholm Furniture fair í Svíþjóð nú í febrúar en þau sem sýningunni tengjast verða einnig sýnd í samtali við ný verk.

Sýningin er hluti af dagskrá Hönnunarmars en stendur frá 20.apríl til 17.maí.
Vinsamlegast athugið að sýningin fylgir ekki almennum opnunartíma viðburða á Hönnunarmars.

Opnunartími:
Opið mán - fös 9:00 - 18:00
Laugardaga: 12:00 - 16:00
Sunnudaga: Lokað (ekki opið 28.apríl)
Lokað sumardaginn fyrsta 25.apríl.

Verkefnið er styrkt af Myndstef og Hönnunarsjóði.
Sýningin er að hluta í samstarfi við Húsasmiðjuna á Höfn.
Til baka

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira