logo
  • Virðing -
  • Jákvæðni -
  • Framsækni -
  • Umhyggja

Atli Már í Listasal Mosfellsbæjar

30/04/2019
Atli Már Indriðason opnar sýninguna Atli Már í Listasal Mosfellsbæjar föstudaginn 3. maí kl. 16-18. Sýningin er hluti af List án landamæra en Atli Már er einmitt listamaður hátíðarinnar í ár. Sýningin stendur til 31. maí. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir. Gott hjólastólaaðgengi er að salnum.

Atli Már Indriðason fæddist árið 1993. Hann útskrifaðist úr diplómanámi Myndlistaskólans í Reykjavík vorið 2017 og hefur sótt vinnustofur í myndlist við sama skóla frá árinu 2013. Atli hefur tekið þátt í fjölda samsýninga á síðustu árum. Árið 2018 var hann með einkasýningu í Þjóðminjasafninu sem var hluti af List án landamæra. Í sumar opnar hann einkasýningu í Safnasafninu.

Atli Már er afkastamikill listamaður. Hann nýtir flestar frístundir til þess að teikna í skissubækurnar sínar. Verk Atla Más bera sterk höfundareinkenni hans. Þau eru litrík og lifandi og einkennast oftast af persónum og fígúrum. Ofurhetjur, bíómyndir, teiknimyndir og ævintýri eru alla jafna viðfangsefni Atla Más. Í verkum hans má glögglega sjá hversu víðtæka þekkingu hann hefur á þessum ævintýraheimum. Oft málar hann ofurhetju ásamt öllum hennar fylgihlutum eða fígúrur sem einungis helstu áhugamenn þekkja. Hann málar stjórnklefa geimskipa, alla innviði bakarísins í Hálsaskógi eða heila senu úr bíómynd. Atli vinnur oftast tvívíð verk og notast við málningu, tréliti og tússliti. Hann býr einnig til skúlptúra úr hverju því sem hendi er næst. Í þessum skúlptúrum má greinilega sjá einlægan áhuga Atla á viðfangsefni sínu sem oftar en ekki er framlenging á ofurhetjuheiminum - kíkir, sverð, grímur og tæki.


Til baka

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira